Viktor Arnar Ingólfsson rithöfundur
 

Flateyjargáta

Forsíða

Almennar upplýsingar

Ætt og fjölskylda

English

Deutsch

 

e-mail: vai (-at-) mi.is

Bækur

 
 
 

Flateyjargáta

Flateyjargáta kom fyrst út 2002. Hér fyrir neðan má sjá kápumyndir af ýmsum útgáfum sem hafa komið út síðan.

1. útgáfa 2002

Þýsk úgáfa

Þýsk útgáfa

Þýsk útgáfa

 

Hollensk útgáfa

Tékknesk útgáfa

Flateyjargáta

Texti á bókarkápu:

Miðvikudaginn 1. júní 1960 fara menn úr Flatey í selalögn í Ketilsey á Breiðafirði en finna þá dauðan mann í eynni. Í fyrstu er talið að um sjórekið lík sé að ræða. Óreyndur fulltrúi sýslumanns á Patreksfirði er sendur á vettvang til að kanna málið með yfirvaldinu í Flatey. Fljótlega kemur í ljós að dauðsfallið er afar dularfullt, rannsóknin vindur upp á sig og teygir anga sína bæði suður til Reykjavíkur og til annarra landa. Miðpunktur sögunnar er þó ævinlega í Flatey.

Friðsæld mannlífsins þar er rækilega rofin og í ljós kemur að skrautlegir og eftirminnilegir íbúar eyjarinnar búa margir yfir leyndarmálum sem glæparannsóknin dregur fram í dagsljósið. Bókin sem við eyna er kennd, sjálf gersemin Flateyjarbók, gegnir lykilhlutverki við lausn gátunnar.

Viktor Arnar Ingólfsson hefur hér samið afar margslungna og spennandi sakamálasögu. Hann gjörþekkir lífið í Breiðafjarðareyjum á sögutímanum og dregur upp minnisstæðar persónur. Hann hefur áður gefið út sakamálasöguna Engin spor, sem fyrst íslenskra glæpasagna var tilnefnd til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna árið 2001. Í því verki sýndi Viktor Arnar með eftirminnilegum hætti að honum lætur sérlega vel að halda utan um flókna atburðarás og byggja upp spennu. Flateyjargáta rís undir öllu því sem fyrri bókin lofaði og staðfestir að við höfum eignast sakamálasagnahöfund sem stenst samjöfnuð við þá bestu.

__________________________________________

Flateyjargáta, bókardómar

„Það var gaman að glíma við Flateyjargátuna“ Úlfhildur Dagsdóttir, Kastljós 14.11.2002

 

Miðvikudaginn 27. nóvember, 2002 - Morgunblaðið Bókablað

BÆKUR - Glæpasaga

Spenna að fornu og nýju

FLATEYJARGÁTA

Viktor Arnar Ingólfsson

Mál og menning, Reykjavík 2002, 284 bls.

ÞAÐ er svo gaman að láta koma sér á óvart með góðri skáldsögu. Að vita ekkert nema örfáar staðreyndir þegar bókin er opnuð og láta síðan lokka sig með galdri tungumálsins inn í annan heim. Inn í heim sem er svo seiðandi og spennandi að það er ekki nokkur leið að leggja frá sér bókina fyrr en lestrinum er lokið.

Þannig er því farið með Flateyjargátu eftir Viktor Arnar Ingólfsson. Undirtitill bókarinnar er Glæpasaga en sagan er miklu meira en það. Hún er jafnvel ekki hefðbundin glæpasaga þegar upp er staðið. Lesandinn er leiddur inn í liðinn tíma á litlum stað; Flatey árið 1960. Umhverfið er lítil byggð á lítilli eyju þar sem kyrrðin ríkir og einu hljóðin eru í fuglunum og hafinu; náttúrunni sem er griðland og ógnvekjandi í senn, á tíma þegar tæknin hafði varla náð til afskekktra staða. Hvað tímann varðar er ekki nóg með að sagan gerist fyrir rúmum fjörutíu árum heldur er líka farið aftur í tímann, allt aftur til þriðja áratugarins þegar forsaga aðalpersónanna kemur í ljós. Undirrót glæpagátunnar liggur þó miklu fyrr í tíma en það, í sjálfri Flateyjarbók.

Flateyjarbók gefur tóninn fyrir andrúmsloft sögunnar sem er þrungið gömlum tíma og virðingu fyrir fornri menningu og siðum. Í lok hvers kafla er þetta fornrit í aðalhlutverki en lesandinn er upplýstur á afar skemmtilegan hátt um tilurð og sögu handritsins og um ástríðuþrunginn áhuga lærðra og leikra á bókinni. Gátan sem sagan dregur nafn af og sem höfundur spinnur inn í atburðarás glæpa og spennu er sérstaklega lifandi leið til að líma lesandann við lesturinn. Saga handritsins sem geymt var í Flatey verður eins konar saga í sögunni.

Persónur Flateyjargátu virða þó og þekkja hina fornu bók á afar mismunandi forsendum eins og gengur um handritin fornu. Höfundur smíðar stórt og fjölbreytt persónusafn, oftast ljóslifandi og áhugavert. Mest er þeim lýst sem búa í eyjunni, þar er hreppstjórinn, meðhjálparinn, kotbændur, stórbændur, kaupmaður og læknir ásamt fleirum sem koma við sögu en þetta eru meira og minna kúnstugar persónur. Aðalpersónur sögunnar eru nokkrar og er þar fremstur sýslumannsfulltrúinn óreyndi, Kjartan, sem er sendur til þess að kanna málin þegar lík finnst á fjarlægri eyju. Umhverfi, fólki og atburðum er lýst frá hans sjónarhorni að mestu leyti þar sem hann er gesturinn á sögusviðinu. Frásögnin er þó í þriðju persónu og sjónarhornið ekki alltaf hans. Mig hefði langað til þess að fá að vita meira um hugsanir og tilfinningar þessarar aðalpersónu þar sem rauði þráðurinn fylgir henni. Það er dálítil spurning hvort Kjartan hverfur of lengi í einu af sjónarsviðinu, til dæmis þegar hann dregur sig í hlé þegar lík númer tvö kemur í ljós. Að vísu er það augljós aðferð til þess að auka spennuna að láta hann beinlínis týnast eitt sinn og vægi hans í sögunni verður sannarlega óvænt. Fleiri mikilvægar persónur koma við sögu og er þar fremstur sá látni sem er vel lýst. Læknirinn Jóhanna vekur forvitni lengi vel enda leikurinn til þess gerður en ég hefði einnig viljað kynnast henni betur.

Það er erfitt að lýsa ákveðnum persónum og atburðum í spennusögu eins og þessari hér án þess að láta of mikið uppi og vil ég alls ekki ræna lesendur ánægjunni af því að uppgötva sjálfir lykla, forboða og vísbendingar. Eins og í öllum alvöru glæpasögum eru margir grunaðir áður en yfir lýkur, jafnvel þeir sem eiga mesta samúð, og er endirinn ánægjulega óvæntur. Auk þess er ég sérlega ánægð með formála og eftirmála höfundar og skemmtilegt var að lesa kaflana úr Jómsvíkingasögu í Flateyjarbók í bókarauka. Viktor Arnar segir í ágætu viðtali í Helgarblaði DV á dögunum að hann sé í hópi þeirra glæpasagnahöfunda sem leggja mest upp úr fléttu en hinn hópurinn leggi mest upp úr umhverfi, andrúmi og persónusköpun. Ég get alls ekki verið sammála þessar skoðun höfundar á sjálfum sér því að auk þess að búa yfir pottþéttri spennufléttu lokkar Flateyjargáta lesendur sína inn í heillandi umhverfi, kynnir þá fyrir lifandi persónum og býr síðast en ekki síst yfir seiðandi andrúmslofti liðins tíma.

Hrund Ólafsdóttir

Morgunblaðið, 2003

 

 

Katrín Jakobsdóttir, DV 28.11.2002

Flateyjargáta: Einstakt andrúmsloft

Í Flateyjargátu eftir Viktor Arnar Ingólfsson segir frá ungum lögfræðingi, Kjartani, sem hefur nýhafið störf hjá sýslumanninum á Patreksfirði. Kjartan sér fram á rólega daga við skýrslugerð og þinglýsingar þegar hann er sendur til Flateyjar til að rannsaka andlát manns sem fannst látinn í Ketilsey. Rannsókn málsins reynist snúnari en hann gat órað fyrir og inn í glæpamálið flækist hin svokallaða Flateyjargáta; gáta sem Hafnarstúdentar sömdu upp úr Flateyjarbók á fyrri hluta 20. aldar og er varðveitt í bókasafni Flateyjar ásamt útgáfu af Flateyjarbók, einu merkasta handriti miðalda. Lesendur fylgjast annars vegar með Kjartani feta sig áfram og hins vegar Dagbjarti, lötum rannsóknarlögreglumanni í Reykjavík sem sér um rannsóknina á þeim endanum.

Flateyjargáta er mjög vel unnin saga og stenst fyllilega samanburð við síðustu bók Viktors, Engin spor, sem kom út 1998. Sagan á að gerast í júnímánuði 1960 og Viktor tekst að skapa einstakt andrúmsloft á einangraðri eyju: Þar sem enginn á bíl, þar sem bara er hægt að komast í land á báti, þar sem ekki er hægt að hringja nema úr símstöðinni, þar sem fólk borðar selkjöt og svartbaksegg í hvert mál. Lyktin af grasinu nánast streymir úr hverri síðu, lesandi heyrir öldurnar skella á fjörugrjótinu og fuglana garga.

Persónusköpun í þessu einangraða samfélagi tekst líka með miklum ágætum. Þó að persónur séu margar eru þær eftirminnilegar, einkum eyjarskeggjar eins og Grímur hreppstjóri, Högni kennari, hinir sérkennilegu feðgar í Ystakoti, séra Hannes og frú og meðhjálparinn Þormóður krákur. Viktori tekst ágætlega að ljá hverjum og einum persónueinkenni, s.s. ólíkar stjórnmálaskoðanir eða ólík áhugamál.

Aðalpersónan og sögumaðurinn er Kjartan sem heldur sig til hlés frá fyrstu síðu enda er lesanda gert ljóst að hann hefur lítt gaman af að ræða persónulega hagi sína (bls. 35, 91). Spenna myndast á milli hans og læknisins í eyjunni sem er ung kona, Jóhanna að nafni, og fylgist lesandi spenntur með sambandi þeirra ásamt rannsókninni á líkinu sem enginn virðist þekkja. Dagbjartur er skondin persóna sem hefur lítinn áhuga á lögregluvinnu þrátt fyrir starf sitt.

Inn í allt þetta fléttast svo Flateyjargátan sem hugsanlega varðveitir lykilinn að leyndardómnum. Með því að skrifa um Flateyjarbók sem dýrgrip og tengja hana leyndardómsfullum gátum heldur Viktor Arnar á svipuð mið og Arturo Perez-Reverté hefur gert í bókum sínum; hann skrifar menningarlega glæpasögu þar sem glæpamál samtímans eru tengd bókmenntaverkum miðalda í gegnum gátuleiki og ráðgátur. Þessi tenging tekst vel hjá Viktori og í heildina tekið er Flateyjargáta epísk og spennandi saga.

Á sögunni er þó einn galli og hann tengist sjálfri glæpasögunni. Lausnin á glæpamálinu er trúverðug en veldur vonbrigðum; viss glæpasagnalögmál eru brotin og lesandi verður svekktur þar sem hann telur sig vera að lesa glæpasögu. Eigi að síður er andrúmsloft Flateyjargátu einstakt, persónur eftirminnilegar og sagan heldur lesanda spenntum. Viktor Arnar hefur ótvíræða hæfileika til að skrifa sögulegar eða menningarlegar glæpasögur en mætti leggja eilítið meira í glæpasagnahlutann.

Katrín Jakobsdóttir

Viktor Arnar Ingólfsson: Flateyjargáta. Mál og menning 2002.

 

______________________________________________________________

Flateyjargáta, 1 kafli

Miðvikudagur, 1. júní 1960

Vindátt var að austan á Breiðafirði í morgunsárið og svalur vornæðingur ýfði upp hvítfyssandi báru á sundunum milli Vestureyja. Einbeittur lundi var á hröðu lágflugi yfir öldutoppum og forvitinn skarfur teygði úr sér á lágu skeri. Nokkrar teistur köfuðu í hafdjúpið en í háloftunum svifu íbyggnir mávar og skimuðu eftir mögulegu æti. Allt sköpunarverkið í firðinum var í senn kvikt og vakandi í glampandi morgunsólinni.

Lítill en traustbyggður mótorbátur steytti stömpum á kröppum bárum og fjarlægðist Flateyjarlönd í suðurátt. Fleytan var með gömlu árabátalagi, svartbikuð, en á kinnungunum stóð bátsnafnið KRUMMI með stórum hvítum upphafsstöfum. Skipverjar voru þrír, ungur drengur, fulltíða maður og annar talsvert eldri. Þrír ættliðir og heimilismenn í Ystakoti, lítilli hjáleigu á vesturhorni Flateyjar.

Sá elsti, Jón Ferdinand, sat í skut og stýrði bátnum. Hvítir skeggbroddar í teknu andliti og svartur neftóbakstaumur rann úr víðri nös. Nokkrar gráar hárlufsur löfðu undan gamalli derhúfu og leituðu fyrir andlitið undan vindi. Stór og beinaber hönd hélt um stýrisskaftið og gömul augu undir loðnum brúnum leituðu að lítilli eyju í suðri. Siglingaleiðin var ekki augljós þrátt fyrir að skyggnið væri gott. Hólma og sker bar við meginlandið en Dalafjöllin sátu í bláu húmi þar fyrir handan.

Jón Ferdinand beindi bátnum á ská upp í báruna en sló undan þess á milli. Farkosturinn var ekki stærri en svo að það var vont að fá stærstu öldurnar á hann þveran. En gamli maðurinn stjórnaði bátnum af tilfinningu og virtist hafa ánægju af átökunum við sjóana.

Á þóftunni fyrir framan vélarhúsið sat sonur stýrimannsins, Guðvaldur að nafni. Hann reykti pípustert og brýndi vasahníf. Berhöfðaður í þykkri ullarpeysu sneri hann sér undan öldunni með pípuna því stundum pusaði af bárunni inn fyrir borðstokkinn. Andlitið var veðurbitið og svipurinn hrjúfur. Vinstra augað blint, augasteinninn hafði orðið fyrir áverka og hvítnað þegar hann greri. Hitt augað var kolsvart. Guðvaldur var skírður eftir löngu látnum ættingja sem hafði vitjað nafns í draumi móður hans. Annars var hann alltaf nefndur Valdi og kenndur við Ystakot af sveitungum heima í Flatey.

Óvenjuhá alda brotnaði á bátnum og sendi skvettu á hrokkinhærðan hnakkann á Valda. Hann leit upp og skimaði fram fyrir bátinn. „Pabbi, gáðu að þér," kallaði hann höstuglega í föður sinn. „Geturðu ekki munað að við erum á leið út í Ketilsey. Þú stefnir of mikið í suður."

Gamli maðurinn brosti svo skein í stakar, gular tennur og beran góm.

„Of mikið í suður, of mikið í suður," sagði hann rámri rödd og sneri bátnum upp í ölduna en Valdi hélt áfram að reykja pípuna og fást við hnífinn þegar hann sá að stefnan var aftur orðin rétt.

Nonni litli Guðvaldsson sat á seglum í stefninu og hélt sér með báðum höndum í borðstokkana. Honum var kalt og hann var sjóveikur. Þessu var hann vanur og allajafna lét hann hrollinn og ógleðina ekki á sig fá. Það sem var verra nú, og þótti ekki sjómannslegt, var að hann þurfti mjög að ganga örna sinna. Hann hafði orðið seinn fyrir um morguninn og gleymt að fara á kamarinn áður en þeir lögðu af stað. Hann bar sig þó ekki upp við föður sinn með þessa þraut því Valdi hefði bara bent honum á að setjast út fyrir borðstokkinn og ljúka sér af. Ekki leist drengnum á þá athöfn í þessu sjólagi. Öðru hverju kíkti hann upp fyrir stefnið til að sjá hvort áfangastaðurinn væri að nálgast en báturinn gekk hægt. Hann lagðist þá aftur niður á seglin, beit þrjóskur í vörina og einbeitti sér að spenntum hringvöðvanum. Með augun samanklemmd muldraði hann með sjálfum sér aftur og aftur:

„Guð, Jesú bróðir besti, Guð, Jesú bróðir besti, láttu mig ekki kúka í buxurnar í dag."

Hann kíkti enn á ný fram fyrir bátinn.

„Pabbi, pabbi," kallaði hann. „Afi er aftur búinn að gleyma sér."

Valdi leit upp en sneri sér svo að gamla manninum. „Þú stefnir nú of mikið í austur. Manstu ekki að við erum á leiðinni út í Ketilsey, í selalögn?"

Gamli maðurinn virtist ráðvilltur en svo áttaði hann sig. Hann sló bátnum undan öldunni og tók beina stefnu á eyjuna sem nú var skammt undan. Síðan leit hann til Valda og tautaði: „Fóru karlar í Ketilsey, kópa sextán að sækja."

Valdi svaraði ekki, stakk hnífnum í vasann og sló úr pípunni á borðstokknum. Síðan færði hann sig aftur í skut. Lágsjávað var við eyjuna og lendingin að sunnanverðu var í góðu skjóli. Valdi tók við stjórn bátsins en Jón Ferdinand beið tilbúinn með lítinn stjóra sem var festur við langa keðju. Báturinn hjó öldu sem brotnaði af klettunum og Valdi sló af vélinni en gamli maðurinn lét stjórann falla. Keðjan rann fyrir borð og fuglar fældust upp af eyjunni við skröltið. Selur strókaði sig skammt undan en hvarf síðan jafn snögglega í djúpið. Nonni litli stóð tilbúinn í stefninu og um leið og akkeriskeðjan stöðvaði bátinn náði hann taki á sverum, ryðguðum járnhring sem var festur í klettinn, smeygði kaðli í gegnum hann og batt fast. Hann hljóp síðan aftur í bátinn, teygði sig ofan í vélarhúsið og sótti vöndul af gömlum dagblöðum sem þar var geymdur. Valdi horfði eftir stráknum þar sem hann skaust upp úr bátnum og hvarf á bak við klettana.

„Ég var búinn að harðbanna þér að skíta í skerinu," kallaði hann önugur. „Selurinn finnur þefinn af þér í margar vikur."

Nonni litli vissi upp á sig skömmina. Þetta var ein af reglunum sem giltu í selalátrunum en hann mátti til. Hann hljóp upp á eyjuna og fann góðan stað á milli kletta og leysti niðrum sig. Þetta var mikill léttir og nú fór hann að líta í kringum sig. Nokkrir stórir steindrangar mynduðu skjólgóðan hvamm og skammt frá drengnum lágu tvær æðarkollur á eggjum. Þær bærðu ekki á sér og það þurfti vant auga til að greina þær í grastorfunni. Tjaldur stóð á steini og hafði hátt. Sennilega var stutt í hreiðrið hans við fjöruborðið. Lengra frá, undir voldugum kletti, lá hræ af stóru dýri.

Nonni hafði oft séð svipuð fyrirbæri áður í fjörunni, smáhveli, stóra útseli eða útblásna rolluskrokka. Það var nýmæli að þetta hræ var í grænni úlpu.

„Segðu mér frá Flateyjarbók," bað hann.

Hún hugsaði sig um. „Viltu heyra langa sögu eða stutta?" spurði hún loks.

„Langa sögu ef þú hefur tíma."

Hún leit út um gluggann þar sem sólin var að setjast bak við fjöllin í norðvestri og sagði lágt: „Nú hef ég nógan tíma."

 

Viktor Arnar

_______________

tölvupóstfang: vai (hjá) mi.is



 
 

Copyright Viktor Arnar Ingólfsson, All Rights Reserved